10.1.2014 | 08:59
Er Hafnarfjarðarbær að reyna að stórslasa börnin okkar?
Nú get ég ekki lengur orða bundist. Frammistaða þeirra hjá Hafnarfjarðarbæ, í sambandi við hálkuvarnir gangstíga og skólalóða, er vægast sagt til háborinnar skammar. Konan mín var að fara með 6 ára gamlan son okkar í skólann í morgun og komst þá að því að ekki var hægt að fara gangandi vegna glæra ísingar á gangstígnum héðan frá heimilinu og niður í skóla. Ekki var ástandið skárra við skólann, þar sem börnin þurftu ansi mörg að skríða út úr bílunum og inn í skólahúsið, þar sem of hált var á gangstéttum og bílastæðum skólans.
Mér er skapi næst að fara niður á bæjarskrifstofur og lesa þessum ráðamönnum pistilinn, þar sem þessi frammistaða er vægast sagt léleg. Ef ég væri að standa mig svona í minni vinnu, þá væri löngu búið að sparka mér fyrir vikið, en þessir hálfvitar (svo ég leyfi mér nú að vera svolítið mikill dóni, enda ástæða til) eru verndaðir út í það endalausa. Greinilegt að það þarf að fara að hreinsa til hjá því opinbera, sama hvar það er, því það finnst varla hæfur starfsmaður lengur, hvorki hjá ríki né sveitarfélögum. Ég á hér við alla þessa starfsmenn, hvort heldur sem eru kjörnir fulltrúar eða þeir sem hafa verið ráðnir til starfa.
Nú heimta ég bara að þessir kálhausar fari að vinna vinnuna sína og sandberi gangstíga bæjarins hið snarasta eða sendi þá, sem til þess eru ráðnir, til að drullast í að vinna sína vinnu. Börnunum er ekki stætt á leið í eða úr skóla vegna hálku, og við foreldrar erum að reyna að kenna þeim að vera sjálfstæð og komast sjálf á milli, sérstaklega á leiðum sem ekki þarf að fara yfir umferðargötur. En þeir sem eiga að sjá til þess að börnin komist heilu og höldnu á milli staða eru búnir að bókstaflega drulla upp á bak í sinum störfum og ég vil fara að sjá hausa fjúka takk fyrir.
Þetta eru algjörlega ólíðandi vinnubrögð!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er svolítið pirraður núna, búinn að vera það síðan ég talaði við stúlku sem starfar hjá Endurvinnslunni. Ég er ekki pirraður út í hana, né heldur þetta þarfaþing Endurvinnsluna heldur fyrirtækið sem sér um greiðslumiðlun fyrir þá, þ.e. Borgun.
Þannig er mál með vexti að ég og konan mín fórum á Dalveginn til að losa okkur við þann stóra haug af flöskum, dósum og þess háttar, sem hafði safnast í bílskúrinn hjá okkur.
Ég ákvað, að verki loknu, að láta greiðsluna renna inn á fyrirframgreitt kreditkort sem ég nýti endrum og sinnum, en komst að því í dag að það hefði ég betur látið ógert.
Upphæðin, sem er nota bene tekin strax af reikningi Endurvinnslunnar, fer ekki inn á kortareikninginn minn fyrr en eftir tvo virka sólarhringa, sem segir mér að Borgun geymir þessa upphæð, þótt lítil sé, inni á eigin reikningum og tekur væntanlega af því vexti og hugsanlega verðbætur, áður en ég sé krónu af þessu.
Fyrir mér er þetta ekkert annað en fjárplógsstarfsemi og finndist ekkert vera verra ef Fjármálaeftirlitið kannaði þetta, því ég vil gjarnan vita hvort þetta er löglegur gjörningur.
Ég veit ekki hvort þetta er eins þegar fólk lætur leggja inn á debetkortareikninga, þeir sem til þekkja mættu gjarnan uppfræða mig um það. En sem sagt, ég er alveg hundpirraður út í þessi, að mér finnst, glæpafyrirtæki sem greiðslumiðlanirnar eru og vil fá einhverja vitræna skýringu á mannamáli á því hvers vegna svona háttar til!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.11.2012 | 08:52
Baráttan við kerfið hefst
Ég sendi eftirfarandi skeyti til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og afrit af því skeyti til Umhverfisstofnunar, til að fylgja eftir þessum skrifum. Ég einfaldlega sætti mig ekki við að leigusalar komist upp með að þegja þunnu hljóði eftir að gagnrýni á þeirra viðskiptahætti koma fram. Það þarf enginn að segja mér að Keilir hafi ekki fengið smá nasasjón af mínum fyrri skrifum, en svona ef ske kynni að þeir hafi misst af því, þá er ekki verra að annað hvort Heilbrigðiseftirlitið og/eða Umhverfisstofnun kíki í rassvasann hjá þeim.
En hér að neðan kemur skeytið sem ég sendi. Vonandi kemur eitthvað út úr þessu öllu saman. Annars er eins víst að ég verði að setja mig í samband við góðan lögfræðing, sem er óhræddur við að taka slaginn við þessa aðila
Góðan dag.
Áður en ég kem kvörtun minni á framfæri, langar mig að koma á framfæri hörðum mótmælum við framkomu eftirlitsaðila á vegum Keilis, í sambandi við skilaeftirlit íbúða á Ásbrú. Ég vil meina það að eigendur húsnæðis þarna séu vísvitandi að fela galla, þ.e. myglusvepp og annað heilsuspillandi ástand í ákveðnum blokkum á svæðinu. Þessu til stuðnings ætla ég að vísa í litla bloggfærslu sem ég skrifaði þann 14. nóvember síðastliðinn, ásamt þeim athugasemdum sem ég hef fengið við þessum skrifum.
Það að kenna íbúum, sem hafa einungis búið í húsnæðinu um skamma hríð, um að valda því að myglusveppur komi upp í þessum gömlu húsum er vægast sagt til háborinnar skammar og fer ég því fram á opinbera úttekt á starfsháttum eigenda og leigusala húsnæðisins. Einnig langar mig að spyrja hvort þessir sömu aðilar séu hugsanlega skaðabótaskyldir vegna þess heilsufarstjóns sem undirritaður varð fyrir á þeim skamma tíma sem búið var í viðkomandi húsnæði. Einnig langar mig að fá ykkur til að kanna það hvort þeir aðilar sem tóku við íbúðinni, sem við hrökkluðumst úr, hafi verið upplýstir um hvert ástand íbúðarinnar var þegar við fluttum út og þá hvort eigendur og/eða leigusalar hafi þá brugðist við því vandamáli á viðunandi hátt.
Þegar ég tala um viðunandi hátt, þá er ég ekki að tala um að þegja þunnu hljóði og mála yfir myglusveppinn, en það er það sem ég er viss um að hafi verið gert áður en ég og mín fjölskylda fluttum inn. Það er þekkt staðreynd að þessi blokk, númer 1233, hafi verið morandi í myglusvepp áður en við fluttum inn og því er það ábyrgðarhluti eigenda og leigusala að gera ekkert raunverulegt í málinu, áður en hver íbúð um sig var afhent nýjum leigjendum.
Bloggfærsluna má nálgast á slóðinni http://redaxe.blog.is/blog/redaxe/entry/1268384/ og eru einnig athugasemdir við þau skrif neðanmáls.
Með vinsemd og virðingu
Tómas Þráinsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.11.2012 | 17:33
Laus úr helvíti ..... eða næsta bæ við
Ég bjó um 3ja ára skeið á Ásbrú á Suðurnesjunum, þetta er betur þekkt sem gamla varnarsvæðið hjá ameríska hernum. Fyrst bjuggum við hjónin í blokk númer 926, sem var í sjálfu sér ekki svo slæmt, með þeirri undantekningu að við höfðum enga verönd. Það fór að há okkur þegar strákurinn okkar fór að eldast, því þá var svo erfitt að sleppa honum út úr húsi, því engin leið var að hafa nokkurt eftirlit með honum og ekki sendir maður 2-4 ára gamlan gutta einan að leika sér, þegar hann kann ekki að passa sig á umferðinni. Að auki er grunur um að hann sé eitthvað að teygja sig inn á einhverfurófið, sem gerir allt svoleiðis mun erfiðara í vöfum.
Síðan flutti dóttirin að heiman til að fara í heimavistarskóla norður í landi og við ákváðum því haustið 2011 að líta eftir minni íbúðum á Ásbrúnni. Fljótlega kom í ljós að við áttum okkur óskaíbúð sem var laus, á Suðurbraut 1233, og fengum við hana skömmu fyrir mánaðarmótin október-nóvember 2011. Heldur minni, enda töldum við okkur þurfa minna pláss, og með verönd og stóru garðsvæði, svo ekki sé talað um hina stuttu gönguleið út á leikskóla með yngsta barnið.
Rúmum 2 mánuðum síðar fór að bera á því hjá undirrituðum að alls konar lasleiki og pestarsókn fór að taka völdin og á fyrstu 2 mánuðum ársins 2012 missti ég úr upp undir mánuð í veikindum, lungnabólga, streptókokkar, flensa o.þ.h. Ekki mjög hentugt þegar vinnustaðurinn var hvort sem er undirmannaður og öll forföll komu sér því ákaflega illa vegna aukins álags á þá sem þó voru mættir. Loksins losnaði ég þó við þetta, en var samt oft slæmur í hálsi og öndunarfærum, eitthvað sem ég vildi rekja til lungnabólgunnar í ársbyrjun.
En smám saman fórum við að ókyrrast vegna megnrar óánægju með að vera á Suðurnesjunum. Við vorum svo fjarri öllu okkar tengslaneti, þeir fáu kunningjar sem við eigum í nærliggjandi bæjarfélögum komu sjaldan í heimsóknir og við sömuleiðis fórum sjaldan til þeirra. Ég ætla ekkert að fjölyrða um hvað olli þessu, en í það minnsta var þetta tilfellið.
Við vorum svo heppin að fá fínasta húsnæði í Hafnarfirðinum, eitthvað sem við tókum við í júlíbyrjun og þar með þurftum við að fara á fulla ferð að ganga frá íbúðinni á Suðurbrautinni. Fljótlega kom í ljós að ástand á gólfefnum var vægast sagt skelfilegt, og hafði í raun verið það þegar við fluttum inn. Við höfðum bara ekki haft tök á að gera skýrslu um stöðuna þegar við fluttum inn, þar sem við hjónin urðum fyrir þeirri erfiðu reynslu að konan mín átti við verulega erfið heilsufarsvandamál að glíma, og því var svona tittlingaskítur ekki hátt á forgangslistanum hjá okkur.
En sem sagt, við vorum á fullu að gera við göt í veggjum og mála og annað þess háttar sem þurfti að kippa í liðinn. Þá kom í ljós að í hjónaherberginu, sem var með 2 horn sem útveggshorn á blokkinni og annað þeirra var einmitt við svalir/verönd þeirra íbúða sem fyrir ofan okkur var. Þetta var því tilvalinn staður fyrir alls konar vandamál og það sem að mér sneri var myglusveppur rétt ofan við höfðalagið mín megin. Þegar við bentum eftirlitsfólkinu frá Keili á þetta, þá vildu þeir meina að þetta væri vegna þess að við værum ekki nægilega dugleg að opna glugga þegar við vorum búin að fara í sturtu!!! Konan mín var voðalega fegin því að ég skyldi vera að vinna þegar þessi úttekt gerð og þessi fáránlega fullyrðing kom fram, ég hefði nefnilega misst mig við að lesa þeim sem sáu um úttektina pistilinn. Við nefnilega vissum að það hafði komið upp myglusveppur í þessari sömu blokk áður og því ekki möguleiki að svona færi að grassera í svona miklu magni á eins stuttum tíma og við bjuggum þarna.
Það sem mér liggur á hjarta í þessum efnum er eftirfarandi:
Lét íbúðasvið Keilis næsta leigjanda vita af myglusveppnum eða máluðu þeir bara yfir og héldu svo kjafti um allt í þeirri von að næsti leigjandi hefði ekki næga þekkingu til að hjóla í þá?
Af hverju var okkur ekki tjáð að þetta vandamál hefði komið upp áður en við fluttum inn? Þegar fólk er með börn þá verður svona lagað að vera á hreinu, því ekki vill maður að börnin fái króníska öndunarfærasjúkdóma af völdum fádæma sleifarlags þeirra sem eiga að sjá um útleigu þessara íbúða.
Eru þeir hugsanlega skaðabótaskyldir vegna þess vinnutaps sem ég varð fyrir í kjölfar þess að flytja inn í íbúðina þarna?? Ef ekki, þá af hverju ekki??
Hversu margar aðrar íbúðir þarna í sömu blokk eru líka í þessu sama ástandi, þ.e. með myglusvepp í hornum sem snúa að útveggshornum blokkarinnar?
Hvernig stendur á því að íbúðasvið Keilis fær ekki Heilbrigðiseftirlitið til að taka út íbúðirnar við skil og afhendingu milli leigjenda??
Ég veit að stórt er spurt og væntanlega verður fátt um svör, eins og vanalega þegar svona fyrirtæki skíta upp á bak í sambandi við meðhöndlun sinna viðskiptavina. Því ætla ég að biðja alla vini mína um að deila þessum pistli á facebook, twitter, google+ og hverjum þeim samskiptavef sem þeir nota. Svona lagað má ekki þagga niður eða fá að liggja í láginni, því gott heilbrigði íbúa í þessum íbúðum hlýtur að vera keppikefli leigusala, sér í lagi þegar um er að ræða námsfólk sem ekki hefur mikil efni á að missa úr fyrirlestrum og/eða verkefnatímum.
Ég læt þessu lokið hér, en ef ykkur dettur fleira í hug sem mætti bæta hér við, þá endilega setjið athugasemdir hér að neðan, ég mun reyna að bæta þeim atriðum við listann hjá mér ef þau eiga við í þessum pistli.
Bloggar | Breytt 30.11.2012 kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.8.2012 | 09:04
Vangaveltur um greiðsluvilja almennings
Skoðum aðeins nánar hvað getur valdið þessum skorti.
Fyrir ekkert mjög löngu síðan voru miklar afskriftir samþykktar hjá Arionbanka. Samskip fékk afskrifaða 50 milljarða og fyrirtækið síðan afhent sama aðila og keyrði það á kaf í skuldafen. Stuttu síðar voru þeim aðila veittar afskriftir upp á 63 milljarða af persónulegum ábyrgðum, auk rúmlega 10 milljarða afskriftum á eigin persónulegum skuldum. Annað fyrirtæki fékk afskrifaða 5 milljarða og er nú að berjast við að fá samþykkt kaup á öðru fyrirtæki, þó raunar hafi tilboðið í það fyrirtæki verið gert talsvert löngu áður en afskriftir voru samþykktar.
Skoðum svo afskriftaviljann gagnvart almenningi.
Hann er enginn. Punktur og basta. Ef þú skuldar ekki 500 milljónir eða meira, þá áttu ekki séns. Fólk er blóðmjólkað, sparifé þurrkað upp í baráttunni við að reyna að halda sér á réttum kili, sem auðvitað dugir engan veginn, því bankinn gengur mjög hart fram í innheimtum. Þetta veldur því náttulega að fólk lendir í frekari greiðsluvanda þegar sparifé er uppétið, bankinn gengur að eigninni af fyllstu hörku og hendir svo fólki út á götuna.
Og þetta lið er svo hissa þegar fólk ákveður að gefa skít í endurgreiðslur lána og lætur þau bara flakka í hendur innheimtufyrirtækja, greiðir þeim ekki heldur og fer því á vanskilaskrá. Gott og vel, menn eru á skránni í 4 ár, frá síðustu skráningu. Eftir það byrja þeir á sléttu, nema fleira bætist þar við. Ég er ekkert hissa á að menn gefi skít í þessa aðila, er í miðjum klíðum við að gera það sjálfur. Í raun er það eina sem ég borga fastir reikningar og svo af þeim lánum sem eru með annað hvort lánsveð eða ábyrgð annarra. Aðrar skuldir verða bara að bíða þangað til betur árar hjá mér, eða verða afskrifaðar.
Ég hef enga samúð með bönkum og innheimtufyrirtækjum. Þeir hafa hagað sér eins og verstu mafíósar gagnvart almenningi og mín þolinmæði gagnvart þeim var þrotin fyrir réttum 5 árum síðan, þ.e. ári fyrir hrun. Mér er alveg nákvæmlega sama þó þeir hóti mér heimsendi og þess háttar. Ég borga bara eins og tekjurnar ráða við og reyni eftir bestu getu að tryggja það að fjölskyldan hafi nóg að bíta og brenna. Ef ég verð gjaldþrota, þá er það bara fínt, ég er hvort sem er ekki á leiðinni að fá mér kreditkort, taka frekari lán eða kaupa húsnæði hér á skerinu. Ja, ekki nema ég vinni bónusvinninginn í víkingalottóinu og það er mjög takmarkaður möguleiki, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að ég kaupi nánast aldrei miða.
Þessi innheimtuglæpafyrirtæki og þeirra stjórnarmenn væru best geymd á hafsbotni, þau eru afætur og kvalarar almennings auk þess að vera vinir og vandamenn þeirra sem blóðmjólka kerfið. Og það versta er að þessi fyrirtæki starfa í skjóli algjörlega gagnslausra stjórnvalda, stjórnvalda sem lofuðu því að standa vörð um hag heimila en ákváðu í staðinn að verja bankana og þeirra samstarfsmenn fyrir öllum áföllum og gefa þeim skotleyfi á almenning. Það sorglega er að það er alveg sama hvaða flokkar komast til valda, þeim er alveg sama um okkar afkomu! Allt sem þeim er umhugað um er að maka eigin krók og að koma sínum mönnum í áhrifastöður.
Ég ætla að reyna mitt besta til að lifa innihaldsríku lífi, vera góður fjölskyldufaðir og sjá til þess að börnin mín og stjúpbörn hafi í sig og á. Allt annað kemur þar á eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2012 | 17:34
Tónlist
Ég er einn af þeim sem á voðalega erfitt með að sætta mig við þá tónlist sem er matreidd ofan í mann í útvarpi, nú eða sjónvarpi. Þetta er voðalega einsleitt, með sárafáum undantekningum. Spilunarlistar eru settir upp á hverri stöð fyrir sig og það sem er á þeim listum skal spilað allan daginn, helst ekkert annað. Aðrar tegundir tónlistar fá sárasjaldan að heyrast, þannig að það er bara þetta fast bundna vinsældalistapopp sem heyrist, en önnur tónlist skal éta það sem úti frýs.
Ég hef í gegnum tíðina verið voðalegur rokkhundur, lítið viljað hlusta á aðrar tegundir tónlistar, en hef þó passað mig á að bera virðingu fyrir því sem aðrir hlustað á. Það er einna helst þegar hrekkjalómurinn í mér vaknar, sem ég fer að æsa menn upp útaf tónlistarsmekk þeirra, sérstaklega þegar ég veit að þeir eru hörundsárir. En ég fór þó að kynna mér fleiri tegundir tónlistar, þannig að fljótlega datt blúsinn inn, enda byggir rokkið mikið á blús í grunninn. Síðar fylgdu klassísk tónlist, djass, bresk þjóðlagahefð, kántrí, blúgrass og þess háttar með. Ég tók mig meira að segja til og fór að stúdera djassgítarleik nú seinni part vetrar, hjá stórsnillingnum Sigurgeiri Sigmundssyni, sem rekur einmitt vefsíðuna Rokk- og stálgítarskólinn. Ég fékk alveg glænýja innsýn inn í það hvernig hægt er að nálgast tónlist og hvernig er hægt að láta tónlistina njóta sín án þess að ofhlaða hana með einhverju bulli. Það er einmitt það sem ég vonaðist eftir með náminu, þannig að vonandi tekst mér að láta þetta endurspeglast í því sem ég vinn með héðan í frá.
Ástæðan fyrir þessum pistli fylgir hér á eftir, enda er ég kominn með ákveðið óþol gagnvart útvarpstónlist. Megnið af þessu er tölvuunnin óbjóður, sem er svo ofhlaðið af rusli og "pitch" breyttum röddum, að ég fæ velgjuna upp í háls þegar ég heyri í þessu. Hvar er hæfileikinn til að setjast niður með kassagítarinn eða við píanóið og setja niður svolítið stef sem síðar þroskast í það að verða heilsteypt lag?? Þetta er allt meira og minna unnið í tölvunni, gjörsamlega sálarlaus fjandi og ekki til vottur af tilfinningu í neinu. Nei takk, þá vil ég frekar hlusta á þessa eldri tónlist sem skilar manni einhverju öðru en því sem á ensku er nefnt "indifference" eða alveg-sama-syndrómið.
Sem betur fer er ennþá til slatti af tónlistarmönnum sem nota raunveruleg hljóðfæri við sína sköpun, en mér sýnist að þeim fari fækkandi og er það miður. Ég er að berjast við að hamra saman efni sem mig langar að gefa út, en ég sé fram á það að það verði of dýr pakki að fara í stúdíó til að taka þetta upp. Ég á búnað sem gæti gert mér kleyft að taka upp hluta af efninu, en ég er því miður í þeirri stöðu að kunna ekki nægilega vel á þann búnað. Einnig er ég í þeirri stöðu að hafa ekki aðgang að æfingahúsnæði, þannig að ef ég vildi setja saman hljómsveit til að spila efnið mitt, þá hefðum við engan stað til að æfa á. Vonandi rætist nú úr því, en allavega mun ég halda áfram að semja og sjá svo til hvort fjárráðin leyfi upptökur í almennilegu stúdíói, enda þarf ég það fyrir upptökur á slagverki og öðru hryntengdu.
Jæja, þetta er nóg röfl í bili, kannski kemur meira síðar :)
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2011 | 01:45
Fjölskyldugleðin
Til langs tíma var ég einhleypur, ekki kannski beint vegna þess að ég kaus það sjálfur, heldur að vissu leiti þar sem ég kunni ekki lengur að treysta hinu kyninu. Ég ætla ekki að fara neitt nánar út í það hér, en það tók mig mörg ár að komast yfir áfallið sem ég varð fyrir hér í denn.
Síðan kynntist ég Kollu og þá breyttist allt. Hún var allt sem ég hafði dreymt um í konu: sjálfstæð, listfeng, með svipaðar lífsskoðanir og ég, hlustaði á svipaða tónlist að stærstum hluta, vildi vera tónlistarmaður til langframa en vantaði félaga. Það er ekki furða að ég telji mig hafa unnið í lottói lífsins, því hún er, í mínum augum, alveg sérstaklega vel heppnuð kona á allan hátt. Að vísu lagði hún til 4 börn til sambúðarinnar, sem síðar varð hjónaband og er enn, en það varð síður en svo til trafala. Við bættum einum gutta við, hann verður raunar 4ra ára eftir rúma viku, og að auki höfum við átt fleiri heimilisdýr en ég get talið upp hér.
Sumpart virtist fjölskyldan okkar vera á góðri leið með að liðast í sundur á ákveðnum tímapunkti, en þá rambaði Kolla á snilldarhugmynd. Fá öll börnin í mat fyrsta laugardag í hverjum mánuði ásamt kærustum og eftir matinn yrði spilakvöld þar sem eitthvert borðspil yrði spilað af krafti þangað til orkuna þryti. Við vorum svo heppin að systir hennar Kollu gaf okkur Alias í jólagjöf og núna í vor náðum við okkur í Partý Alias. Stefnan er að bæta við Trivial Pursuit og fleiri þess háttar spilum, allt til þess að hafa meiri möguleika á fjölbreytni, því fátt er verra en að fá hundleið á því sem styrkir fjölskylduna.
En það er nú einmitt mergurinn málsins hér. Þessi tilraun, sem hófst um síðustu áramót, hefur orðið til þess að við erum orðin miklu nánari sem fjölskylda. Elstu strákarnir tveir eru allt í einu orðnir hinir mestu mátar, en það var eitthvað sem virtist ekki á dagskránni nokkrum vikum fyrir fyrsta spilakvöld, þeir fara saman í keilu, bíó eða út að borða og hafa kærusturnar með, allt í hinu mesta lukkunnar velstandi. Við erum óneitanlega ákaflega lukkuleg með þessa stóru breytingu á þeirra samskiptum, sem hér áður fyrr voru ansi hreint villt, þó ekki sé tekið dýpra í árinni.
Yngri krakkarnir hafa líka tekið vel í þetta, hvert á sinn hátt. Ég get varla beðið þegar við Kolla erum sest í helgan stein, flutt til Kanarí og allur erfingjahópurinn kemur í heimsókn til okkar með öll sín spil og skemmtilegu hugmyndir, þannig að við fáum enn meiri efnivið til þess að skrifa endalausa greinabálka um þau og þeirra samskipti. Við erum stolt af þeim, ég á ekkert í neinu þeirra, að undanskyldum þeim yngsta, en samt lít ég á þau eins og börnin mín. Ég reyni, eftir bestu getu, að styrkja þau og hvetja, hvað svo sem þau taka sér fyrir hendur. Ég reyni ekki að stýra þeim, það væri forsjárhyggja sem félli í heldur grýttan jarðveg, heldur sting ég að þeim hugmyndum og hvet þau til að skoða þær og finna svo sinn vinkil á þeim. Ég veit að mínar hugmyndir verða ekki endilega það sem þau framkvæma, en það fær þau í það minnsta til að velta fyrir sér lausnum á viðfangsefnum og finni þau lausn, þá er ég hæstánægður. Aðalmálið er að þau leysi sín viðfangsefni á eigin forsendum, allt sem við getum gert er að hjálpa þeim af stað og svo rúllar boltinn.
Sunnudagurinn ber í skauti sér friðarkyrjun SGI búddista, Kosen-Rufu. Það er kyrjun sem stendur í klukkustund, milli klukkan 11 og 12 í öllum tímabeltum jarðarinnar, þannig að við náum að hafa samfleytta kyrjun allan hringinn í kringum jörðina í heilan sólarhring. Það er von okkar og trú að með þessu getum við, hægt og rólega, stuðlað að bættum samskiptum manna á milli, meiri skilningi á milli ólíkra menningarheima og almennri bættri hamingju hvers einstaklings sem byggir þessa jörð.
Við eigum öll rétt á að vera hamingjusöm, sú hamingja getur eingöngu byggst á okkar eigin gildismati, sem vonandi er það að allar lífverur eigi sér heilagan rétt á að vaxa og dafna og blómstra á hápunkti lífsins. Að því loknu fái það að eldast og þroskast með reisn, reisn sem sjálfstæðir einstaklingar í sjálfstæðum heimi.
Góðar stundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2011 | 23:57
Fréttaþurrð og vangaveltur
Ég er eiginlega hættur að nenna að blogga um fréttir, það er alltaf sama helvítis þvælan í hverjum einasta fréttatíma allra ljósvakamiðla, allir prentmiðlar og netmiðlar landsins éta hver upp eftir öðrum, þannig að manni dugir að heimsækja eina síðu til að fá alla myndina, að því gefnu að viðkomandi síða sé notuð sem fréttagátt eingöngu. Eyjan er ágætis miðill að því leiti, þó ég sé nú ekki alltaf alveg sáttur við tenglun þeirra, kannski erfitt að gera öllum til hæfis.
Ég ætla því héðan í frá að blogga eingöngu um hin og þessi mál sem liggja mér á hjarta, með verulega fáum undantekningum þar á. Það vita allir sem vita vilja að núverandi ríkisstjórn er sek um landráð og ætti því að sitja frammi fyrir landsdómi og svara til saka þar. Loforð þeirra um að hjálpa heimilum landsins að halda sjó eru fyrir löngu að engu orðin og allt sem þau (heimilin) gera er að lenda í dýpri skít með hverjum deginum sem líður.
Ég er á fullu að skoða atvinnumöguleika utanlands, sérstaklega þar sem ég gæti nýtt hæfileika mína og kunnáttu á einhvern hátt. Það er hins vegar síður en svo auðsótt mál að næla sér í vinnu erlendis, þar sem maður er ekki á staðnum til að lofa viðkomandi vinnuveitanda að sannreyna yfirlýsta hæfni. En maður þrjóskast við fyrir það, maður hefur engu að tapa, því ástandið gæti ekki versnað á nokkurn hátt. Maður ætti kannski að plata bankana út í að þvinga mann út í gjaldþrot, þá gæti maður loksins farið að lifa af þeirri innkomu sem maður hefur, lágmarksafborganir yrðu staðreynd og bankinn yrði bara að þola það að fá ekki krónu fyrir óbilgirni sína í innheimtuaðgerðum sínum.
En þetta eru náttulega bara vangaveltur, ekki á maður neitt annað en sitt andlega og líkamlega atgervi, hversu góð söluvara sem það kann að reynast.
Morgundagurinn fer í að æfa sig að spila tvö lög sem verða flutt á Kosen-Rufu kyrjun okkar SGI búddista á sunnudaginn, að vísu þurfum við að fara á fund fyrir hádegið, en restin af deginum ætti að nýtast þokkalega. Þegar þær æfingar hafa tekið enda með flutningi sunnudagsins, þá tekur við smá æfingatörn fyrir annan atburð, en ekki verður nánar farið út í hvað það er, þar sem um er að ræða skemmtilega óvænta uppákomu fyrir þann sem fær það tónlistaratriði að gjöf.
Að lokum langar mig að segja frá smá pínlegum atburði sem henti mig á miðvikudagsmorguninn á leið til vinnu. Eins og margir vita bý ég á Suðurnesjunum og sæki vinnu til Reykjavíkur. Ég nota rútuna á milli, þar sem ég get notað um það bil hálftíma af aksturstímanum til að fá mér það sem mér finnst vera verðskuldaður aukalúr, til að tryggja að andlegt atgervi sé sem best þegar á vinnustað er komið. Til að gera langa sögu stutta, þá tókst mér að flækja mig einhvern veginn í opnunarörmum afturhurðar rútunnar, þannig að farsíminn minn skaust af beltinu, ásamt töskunni sem hann hvíldi í, og niður á malbikið neðan við rútuna. Ekki vildi betur til en svo að bílstjóranum lá ofurlítið á og hann lagði eðlilega af stað þegar ég var kominn örugglega út. Við það tækifæri fór afturhjól rútunnar yfir símann, rústaði skjánum á honum, sem varð til þess að ég neyddist til að fjárfesta í nýjum síma. Gamli síminn hefði kostað mig rúmlega tíuþúsund kall í viðgerð, ef ég hefði þrjóskast við að nýta hann áfram, og rafhlaðan (sem var nánast í laginu eins og bókstafurinn "U"), hefði þurft að endurnýjast líka, eitthvað sem hefði kostað mig að minnsta kosti 5000 kall í viðbót. Það var þá betra að fá síma fyrir svipaða upphæð strax og gefa syninum líkið af þeim gamla.
Góðar stundir elskurnar.
Bloggar | Breytt 4.6.2011 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2011 | 15:17
Leikhús fáránleikans
Nei ég er ekki að tala um pönkhljómsveit hér, þó hún hafi nú verið til og verið býsna góð á sínu sviði.
Verðflokkar enskra knattspyrnumanna eru náttulega algjörlega út úr kortinu, því hvernig má það vera að ungur leikmaður, sem ekki hefur enn sannað sig með landsliði eða til lengdar í efstu deild, sé verðlagður á svona bullupphæðir. Mér er í raun alveg sama hver býður í viðkomandi, leikmenn sem eru að koma upp á þennan hátt ættu ekki að seljast á svona verði, nema heildarverð miðað við frammistöðu, leikjafjölda, landsleikjafjölda og þess háttar sé partur af heildarverðinu.
Það veit það hver sem vill að það er ekkert skothelt með þroska íþróttamanns, hann getur orðið fyrir andlegum eða líkamlegum áföllum, svo sem meiðslum eða geðrænum röskunum, og því ekki líklegur til að uppfylla þá hæfileika sem hann fæddist með. Ég held að enskir ættu að skoða aðeins hjá sér leikmannaverðlagninguna og gera rækilegar breytingar.
Liverpool hefur augastað á Henderson | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.6.2011 | 14:43
Og hvað með það?
Þessi afstyrmi eiga ekkert að fara í frí fyrr en í miðjum júlí og koma svo aftur á þing í byrjun september. Þá eru þeir að fá sumarfrí af svipuðu tagi og almenningur, kannski örlítið lengra en það. Ég sé ekki ástæðu til þess að þessir auðnuleysingjar séu að hórast um allar jarðir á fullum launum og vinna ekki fyrir þeim.
Það er einhvern veginn þannig að almenningur hefur ekki lengur neina samúð með því að alþingismenn vinni vinnuna sína. Þeir eiga bara að gera það á þann hátt að almenningur á Íslandi geti lifað mannsæmandi lífi af þeirri innkomu sem hann hefur. Fari þessir letingjar og veri.
Óvíst um þinglok | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tónlistarspilari
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar