Fjölskyldugleðin

Til langs tíma var ég einhleypur, ekki kannski beint vegna þess að ég kaus það sjálfur, heldur að vissu leiti þar sem ég kunni ekki lengur að treysta hinu kyninu. Ég ætla ekki að fara neitt nánar út í það hér, en það tók mig mörg ár að komast yfir áfallið sem ég varð fyrir hér í denn.

Síðan kynntist ég Kollu og þá breyttist allt. Hún var allt sem ég hafði dreymt um í konu: sjálfstæð, listfeng, með svipaðar lífsskoðanir og ég, hlustaði á svipaða tónlist að stærstum hluta, vildi vera tónlistarmaður til langframa en vantaði félaga. Það er ekki furða að ég telji mig hafa unnið í lottói lífsins, því hún er, í mínum augum, alveg sérstaklega vel heppnuð kona á allan hátt. Að vísu lagði hún til 4 börn til sambúðarinnar, sem síðar varð hjónaband og er enn, en það varð síður en svo til trafala. Við bættum einum gutta við, hann verður raunar 4ra ára eftir rúma viku, og að auki höfum við átt fleiri heimilisdýr en ég get talið upp hér.

Sumpart virtist fjölskyldan okkar vera á góðri leið með að liðast í sundur á ákveðnum tímapunkti, en þá rambaði Kolla á snilldarhugmynd. Fá öll börnin í mat fyrsta laugardag í hverjum mánuði ásamt kærustum og eftir matinn yrði spilakvöld þar sem eitthvert borðspil yrði spilað af krafti þangað til orkuna þryti. Við vorum svo heppin að systir hennar Kollu gaf okkur Alias í jólagjöf og núna í vor náðum við okkur í Partý Alias. Stefnan er að bæta við Trivial Pursuit og fleiri þess háttar spilum, allt til þess að hafa meiri möguleika á fjölbreytni, því fátt er verra en að fá hundleið á því sem styrkir fjölskylduna.

En það er nú einmitt mergurinn málsins hér. Þessi tilraun, sem hófst um síðustu áramót, hefur orðið til þess að við erum orðin miklu nánari sem fjölskylda. Elstu strákarnir tveir eru allt í einu orðnir hinir mestu mátar, en það var eitthvað sem virtist ekki á dagskránni nokkrum vikum fyrir fyrsta spilakvöld, þeir fara saman í keilu, bíó eða út að borða og hafa kærusturnar með, allt í hinu mesta lukkunnar velstandi. Við erum óneitanlega ákaflega lukkuleg með þessa stóru breytingu á þeirra samskiptum, sem hér áður fyrr voru ansi hreint villt, þó ekki sé tekið dýpra í árinni.

Yngri krakkarnir hafa líka tekið vel í þetta, hvert á sinn hátt. Ég get varla beðið þegar við Kolla erum sest í helgan stein, flutt til Kanarí og allur erfingjahópurinn kemur í heimsókn til okkar með öll sín spil og skemmtilegu hugmyndir, þannig að við fáum enn meiri efnivið til þess að skrifa endalausa greinabálka um þau og þeirra samskipti. Við erum stolt af þeim, ég á ekkert í neinu þeirra, að undanskyldum þeim yngsta, en samt lít ég á þau eins og börnin mín. Ég reyni, eftir bestu getu, að styrkja þau og hvetja, hvað svo sem þau taka sér fyrir hendur. Ég reyni ekki að stýra þeim, það væri forsjárhyggja sem félli í heldur grýttan jarðveg, heldur sting ég að þeim hugmyndum og hvet þau til að skoða þær og finna svo sinn vinkil á þeim. Ég veit að mínar hugmyndir verða ekki endilega það sem þau framkvæma, en það fær þau í það minnsta til að velta fyrir sér lausnum á viðfangsefnum og finni þau lausn, þá er ég hæstánægður. Aðalmálið er að þau leysi sín viðfangsefni á eigin forsendum, allt sem við getum gert er að hjálpa þeim af stað og svo rúllar boltinn.

Sunnudagurinn ber í skauti sér friðarkyrjun SGI búddista, Kosen-Rufu. Það er kyrjun sem stendur í klukkustund, milli klukkan 11 og 12 í öllum tímabeltum jarðarinnar, þannig að við náum að hafa samfleytta kyrjun allan hringinn í kringum jörðina í heilan sólarhring. Það er von okkar og trú að með þessu getum við, hægt og rólega, stuðlað að bættum samskiptum manna á milli, meiri skilningi á milli ólíkra menningarheima og almennri bættri hamingju hvers einstaklings sem byggir þessa jörð.

Við eigum öll rétt á að vera hamingjusöm, sú hamingja getur eingöngu byggst á okkar eigin gildismati, sem vonandi er það að allar lífverur eigi sér heilagan rétt á að vaxa og dafna og blómstra á hápunkti lífsins. Að því loknu fái það að eldast og þroskast með reisn, reisn sem sjálfstæðir einstaklingar í sjálfstæðum heimi.

Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Tómas Þráinsson
Tómas Þráinsson
Hef skoðanir á öllu og er ekki alltaf kurteis um málin, enda ekki ástæða til

Tónlistarspilari

Tómas Þráinsson - Litli Úlfur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband