12.5.2012 | 17:34
Tónlist
Ég er einn af þeim sem á voðalega erfitt með að sætta mig við þá tónlist sem er matreidd ofan í mann í útvarpi, nú eða sjónvarpi. Þetta er voðalega einsleitt, með sárafáum undantekningum. Spilunarlistar eru settir upp á hverri stöð fyrir sig og það sem er á þeim listum skal spilað allan daginn, helst ekkert annað. Aðrar tegundir tónlistar fá sárasjaldan að heyrast, þannig að það er bara þetta fast bundna vinsældalistapopp sem heyrist, en önnur tónlist skal éta það sem úti frýs.
Ég hef í gegnum tíðina verið voðalegur rokkhundur, lítið viljað hlusta á aðrar tegundir tónlistar, en hef þó passað mig á að bera virðingu fyrir því sem aðrir hlustað á. Það er einna helst þegar hrekkjalómurinn í mér vaknar, sem ég fer að æsa menn upp útaf tónlistarsmekk þeirra, sérstaklega þegar ég veit að þeir eru hörundsárir. En ég fór þó að kynna mér fleiri tegundir tónlistar, þannig að fljótlega datt blúsinn inn, enda byggir rokkið mikið á blús í grunninn. Síðar fylgdu klassísk tónlist, djass, bresk þjóðlagahefð, kántrí, blúgrass og þess háttar með. Ég tók mig meira að segja til og fór að stúdera djassgítarleik nú seinni part vetrar, hjá stórsnillingnum Sigurgeiri Sigmundssyni, sem rekur einmitt vefsíðuna Rokk- og stálgítarskólinn. Ég fékk alveg glænýja innsýn inn í það hvernig hægt er að nálgast tónlist og hvernig er hægt að láta tónlistina njóta sín án þess að ofhlaða hana með einhverju bulli. Það er einmitt það sem ég vonaðist eftir með náminu, þannig að vonandi tekst mér að láta þetta endurspeglast í því sem ég vinn með héðan í frá.
Ástæðan fyrir þessum pistli fylgir hér á eftir, enda er ég kominn með ákveðið óþol gagnvart útvarpstónlist. Megnið af þessu er tölvuunnin óbjóður, sem er svo ofhlaðið af rusli og "pitch" breyttum röddum, að ég fæ velgjuna upp í háls þegar ég heyri í þessu. Hvar er hæfileikinn til að setjast niður með kassagítarinn eða við píanóið og setja niður svolítið stef sem síðar þroskast í það að verða heilsteypt lag?? Þetta er allt meira og minna unnið í tölvunni, gjörsamlega sálarlaus fjandi og ekki til vottur af tilfinningu í neinu. Nei takk, þá vil ég frekar hlusta á þessa eldri tónlist sem skilar manni einhverju öðru en því sem á ensku er nefnt "indifference" eða alveg-sama-syndrómið.
Sem betur fer er ennþá til slatti af tónlistarmönnum sem nota raunveruleg hljóðfæri við sína sköpun, en mér sýnist að þeim fari fækkandi og er það miður. Ég er að berjast við að hamra saman efni sem mig langar að gefa út, en ég sé fram á það að það verði of dýr pakki að fara í stúdíó til að taka þetta upp. Ég á búnað sem gæti gert mér kleyft að taka upp hluta af efninu, en ég er því miður í þeirri stöðu að kunna ekki nægilega vel á þann búnað. Einnig er ég í þeirri stöðu að hafa ekki aðgang að æfingahúsnæði, þannig að ef ég vildi setja saman hljómsveit til að spila efnið mitt, þá hefðum við engan stað til að æfa á. Vonandi rætist nú úr því, en allavega mun ég halda áfram að semja og sjá svo til hvort fjárráðin leyfi upptökur í almennilegu stúdíói, enda þarf ég það fyrir upptökur á slagverki og öðru hryntengdu.
Jæja, þetta er nóg röfl í bili, kannski kemur meira síðar :)
Tónlistarspilari
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 944
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.