Færsluflokkur: Fjármál

Eru greiðslumiðlanirnar Borgun og Valitor ekkert annað en fjárplógsmaskínur?

Ég er svolítið pirraður núna, búinn að vera það síðan ég talaði við stúlku sem starfar hjá Endurvinnslunni. Ég er ekki pirraður út í hana, né heldur þetta þarfaþing Endurvinnsluna heldur fyrirtækið sem sér um greiðslumiðlun fyrir þá, þ.e. Borgun.

Þannig er mál með vexti að ég og konan mín fórum á Dalveginn til að losa okkur við þann stóra haug af flöskum, dósum og þess háttar, sem hafði safnast í bílskúrinn hjá okkur.

Ég ákvað, að verki loknu, að láta greiðsluna renna inn á fyrirframgreitt kreditkort sem ég nýti endrum og sinnum, en komst að því í dag að það hefði ég betur látið ógert.

Upphæðin, sem er nota bene tekin strax af reikningi Endurvinnslunnar, fer ekki inn á kortareikninginn minn fyrr en eftir tvo virka sólarhringa, sem segir mér að Borgun geymir þessa upphæð, þótt lítil sé, inni á eigin reikningum og tekur væntanlega af því vexti og hugsanlega verðbætur, áður en ég sé krónu af þessu.

Fyrir mér er þetta ekkert annað en fjárplógsstarfsemi og finndist ekkert vera verra ef Fjármálaeftirlitið kannaði  þetta, því ég vil gjarnan vita hvort þetta er löglegur gjörningur. 

Ég veit ekki hvort þetta er eins þegar fólk lætur leggja inn á debetkortareikninga, þeir sem til þekkja mættu gjarnan uppfræða mig um það. En sem sagt, ég er alveg hundpirraður út í þessi, að mér finnst, glæpafyrirtæki sem greiðslumiðlanirnar eru og vil fá einhverja vitræna skýringu á mannamáli á því hvers vegna svona háttar til!!


Vangaveltur um greiðsluvilja almennings

Mikið rosalega finnst manni ankannalegt að horfa upp á fjölmiðla blása upp fréttir um skort á greiðsluvilja fólks sem er lent í skuldavanda.

Skoðum aðeins nánar hvað getur valdið þessum skorti.

Fyrir ekkert mjög löngu síðan voru miklar afskriftir samþykktar hjá Arionbanka. Samskip fékk afskrifaða 50 milljarða og fyrirtækið síðan afhent sama aðila og keyrði það á kaf í skuldafen. Stuttu síðar voru þeim aðila veittar afskriftir upp á 63 milljarða af persónulegum ábyrgðum, auk rúmlega 10 milljarða afskriftum á eigin persónulegum skuldum. Annað fyrirtæki fékk afskrifaða 5 milljarða og er nú að berjast við að fá samþykkt kaup á öðru fyrirtæki, þó raunar hafi tilboðið í það fyrirtæki verið gert talsvert löngu áður en afskriftir voru samþykktar.

Skoðum svo afskriftaviljann gagnvart almenningi.

Hann er enginn. Punktur og basta. Ef þú skuldar ekki 500 milljónir eða meira, þá áttu ekki séns. Fólk er blóðmjólkað, sparifé þurrkað upp í baráttunni við að reyna að halda sér á réttum kili, sem auðvitað dugir engan veginn, því bankinn gengur mjög hart fram í innheimtum. Þetta veldur því náttulega að fólk lendir í frekari greiðsluvanda þegar sparifé er uppétið, bankinn gengur að eigninni af fyllstu hörku og hendir svo fólki út á götuna.

Og þetta lið er svo hissa þegar fólk ákveður að gefa skít í endurgreiðslur lána og lætur þau bara flakka í hendur innheimtufyrirtækja, greiðir þeim ekki heldur og fer því á vanskilaskrá. Gott og vel, menn eru á skránni í 4 ár, frá síðustu skráningu. Eftir það byrja þeir á sléttu, nema fleira bætist þar við. Ég er ekkert hissa á að menn gefi skít í þessa aðila, er í miðjum klíðum við að gera það sjálfur. Í raun er það eina sem ég borga fastir reikningar og svo af þeim lánum sem eru með annað hvort lánsveð eða ábyrgð annarra. Aðrar skuldir verða bara að bíða þangað til betur árar hjá mér, eða verða afskrifaðar.

Ég hef enga samúð með bönkum og innheimtufyrirtækjum. Þeir hafa hagað sér eins og verstu mafíósar gagnvart almenningi og mín þolinmæði gagnvart þeim var þrotin fyrir réttum 5 árum síðan, þ.e. ári fyrir hrun. Mér er alveg nákvæmlega sama þó þeir hóti mér heimsendi og þess háttar. Ég borga bara eins og tekjurnar ráða við og reyni eftir bestu getu að tryggja það að fjölskyldan hafi nóg að bíta og brenna. Ef ég verð gjaldþrota, þá er það bara fínt, ég er hvort sem er ekki á leiðinni að fá mér kreditkort, taka frekari lán eða kaupa húsnæði hér á skerinu. Ja, ekki nema ég vinni bónusvinninginn í víkingalottóinu og það er mjög takmarkaður möguleiki, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að ég kaupi nánast aldrei miða.

Þessi innheimtuglæpafyrirtæki og þeirra stjórnarmenn væru best geymd á hafsbotni, þau eru afætur og kvalarar almennings auk þess að vera vinir og vandamenn þeirra sem blóðmjólka kerfið. Og það versta er að þessi fyrirtæki starfa í skjóli algjörlega gagnslausra stjórnvalda, stjórnvalda sem lofuðu því að standa vörð um hag heimila en ákváðu í staðinn að verja bankana og þeirra samstarfsmenn fyrir öllum áföllum og gefa þeim skotleyfi á almenning. Það sorglega er að það er alveg sama hvaða flokkar komast til valda, þeim er alveg sama um okkar afkomu! Allt sem þeim er umhugað um er að maka eigin krók og að koma sínum mönnum í áhrifastöður.

Ég ætla að reyna mitt besta til að lifa innihaldsríku lífi, vera góður fjölskyldufaðir og sjá til þess að börnin mín og stjúpbörn hafi í sig og á. Allt annað kemur þar á eftir.

Höfundur

Tómas Þráinsson
Tómas Þráinsson
Hef skoðanir á öllu og er ekki alltaf kurteis um málin, enda ekki ástæða til

Tónlistarspilari

Tómas Þráinsson - Litli Úlfur
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband