Laus úr helvíti ..... eða næsta bæ við

Ég bjó um 3ja ára skeið á Ásbrú á Suðurnesjunum, þetta er betur þekkt sem gamla varnarsvæðið hjá ameríska hernum. Fyrst bjuggum við hjónin í blokk númer 926, sem var í sjálfu sér ekki svo slæmt, með þeirri undantekningu að við höfðum enga verönd. Það fór að há okkur þegar strákurinn okkar fór að eldast, því þá var svo erfitt að sleppa honum út úr húsi, því engin leið var að hafa nokkurt eftirlit með honum og ekki sendir maður 2-4 ára gamlan gutta einan að leika sér, þegar hann kann ekki að passa sig á umferðinni. Að auki er grunur um að hann sé eitthvað að teygja sig inn á einhverfurófið, sem gerir allt svoleiðis mun erfiðara í vöfum.

 

Síðan flutti dóttirin að heiman til að fara í heimavistarskóla norður í landi og við ákváðum því haustið 2011 að líta eftir minni íbúðum á Ásbrúnni. Fljótlega kom í ljós að við áttum okkur óskaíbúð sem var laus, á Suðurbraut 1233, og fengum við hana skömmu fyrir mánaðarmótin október-nóvember 2011. Heldur minni, enda töldum við okkur þurfa minna pláss, og með verönd og stóru garðsvæði, svo ekki sé talað um hina stuttu gönguleið út á leikskóla með yngsta barnið.

 

Rúmum 2 mánuðum síðar fór að bera á því hjá undirrituðum að alls konar lasleiki og pestarsókn fór að taka völdin og á fyrstu 2 mánuðum ársins 2012 missti ég úr upp undir mánuð í veikindum, lungnabólga, streptókokkar, flensa o.þ.h. Ekki mjög hentugt þegar vinnustaðurinn var hvort sem er undirmannaður og öll forföll komu sér því ákaflega illa vegna aukins álags á þá sem þó voru mættir. Loksins losnaði ég þó við þetta, en var samt oft slæmur í hálsi og öndunarfærum, eitthvað sem ég vildi rekja til lungnabólgunnar í ársbyrjun.

 

En smám saman fórum við að ókyrrast vegna megnrar óánægju með að vera á Suðurnesjunum. Við vorum svo fjarri öllu okkar tengslaneti, þeir fáu kunningjar sem við eigum í nærliggjandi bæjarfélögum komu sjaldan í heimsóknir og við sömuleiðis fórum sjaldan til þeirra. Ég ætla ekkert að fjölyrða um hvað olli þessu, en í það minnsta var þetta tilfellið.

 

Við vorum svo heppin að fá fínasta húsnæði í Hafnarfirðinum, eitthvað sem við tókum við í júlíbyrjun og þar með þurftum við að fara á fulla ferð að ganga frá íbúðinni á Suðurbrautinni. Fljótlega kom í ljós að ástand á gólfefnum var vægast sagt skelfilegt, og hafði í raun verið það þegar við fluttum inn. Við höfðum bara ekki haft tök á að gera skýrslu um stöðuna þegar við fluttum inn, þar sem við hjónin urðum fyrir þeirri erfiðu reynslu að konan mín átti við verulega erfið heilsufarsvandamál að glíma, og því var svona tittlingaskítur ekki hátt á forgangslistanum hjá okkur.

 

En sem sagt, við vorum á fullu að gera við göt í veggjum og mála og annað þess háttar sem þurfti að kippa í liðinn. Þá kom í ljós að í hjónaherberginu, sem var með 2 horn sem útveggshorn á blokkinni og annað þeirra var einmitt við svalir/verönd þeirra íbúða sem fyrir ofan okkur var. Þetta var því tilvalinn staður fyrir alls konar vandamál og það sem að mér sneri var myglusveppur rétt ofan við höfðalagið mín megin. Þegar við bentum eftirlitsfólkinu frá Keili á þetta, þá vildu þeir meina að þetta væri vegna þess að við værum ekki nægilega dugleg að opna glugga þegar við vorum búin að fara í sturtu!!! Konan mín var voðalega fegin því að ég skyldi vera að vinna þegar þessi úttekt gerð og þessi fáránlega fullyrðing kom fram, ég hefði nefnilega misst mig við að lesa þeim sem sáu um úttektina pistilinn. Við nefnilega vissum að það hafði komið upp myglusveppur í þessari sömu blokk áður og því ekki möguleiki að svona færi að grassera í svona miklu magni á eins stuttum tíma og við bjuggum þarna.

 

Það sem mér liggur á hjarta í þessum efnum er eftirfarandi:

 

  1. Lét íbúðasvið Keilis næsta leigjanda vita af myglusveppnum eða máluðu þeir bara yfir og héldu svo kjafti um allt í þeirri von að næsti leigjandi hefði ekki næga þekkingu til að hjóla í þá?

  2. Af hverju var okkur ekki tjáð að þetta vandamál hefði komið upp áður en við fluttum inn? Þegar fólk er með börn þá verður svona lagað að vera á hreinu, því ekki vill maður að börnin fái króníska öndunarfærasjúkdóma af völdum fádæma sleifarlags þeirra sem eiga að sjá um útleigu þessara íbúða.

  3. Eru þeir hugsanlega skaðabótaskyldir vegna þess vinnutaps sem ég varð fyrir í kjölfar þess að flytja inn í íbúðina þarna?? Ef ekki, þá af hverju ekki??

  4. Hversu margar aðrar íbúðir þarna í sömu blokk eru líka í þessu sama ástandi, þ.e. með myglusvepp í hornum sem snúa að útveggshornum blokkarinnar?

  5. Hvernig stendur á því að íbúðasvið Keilis fær ekki Heilbrigðiseftirlitið til að taka út íbúðirnar við skil og afhendingu milli leigjenda??

 

Ég veit að stórt er spurt og væntanlega verður fátt um svör, eins og vanalega þegar svona fyrirtæki skíta upp á bak í sambandi við meðhöndlun sinna viðskiptavina. Því ætla ég að biðja alla vini mína um að deila þessum pistli á facebook, twitter, google+ og hverjum þeim samskiptavef sem þeir nota. Svona lagað má ekki þagga niður eða fá að liggja í láginni, því gott heilbrigði íbúa í þessum íbúðum hlýtur að vera keppikefli leigusala, sér í lagi þegar um er að ræða námsfólk sem ekki hefur mikil efni á að missa úr fyrirlestrum og/eða verkefnatímum.

 

Ég læt þessu lokið hér, en ef ykkur dettur fleira í hug sem mætti bæta hér við, þá endilega setjið athugasemdir hér að neðan, ég mun reyna að bæta þeim atriðum við listann hjá mér ef þau eiga við í þessum pistli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinbjörg Inga Lind

Skondið, er einmitt nýflutt úr sömu blokk og er búin að losna við sífellt kvef, mígreni og hvaðeina. Systir mín var í sömu íbúð og ég var í og börnin hennar voru sífellt veik þarna.

Sveinbjörg Inga Lind, 16.11.2012 kl. 11:44

2 Smámynd: Tómas Þráinsson

Í hvaða íbúð voruð þið systur?? Ég var í 1-d og er ákaflega feginn að hafa komist burt

Tómas Þráinsson, 16.11.2012 kl. 14:21

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Hef búið á Skógarbraut 1112 í rúmt ár og líkar MJÖG vel - ekki orðið misdægurt - þekki engann sem býr á Suðurbrautinni og ekki heyrt neitt um svona vanda hér í kringum okkur sem betur fer

Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.11.2012 kl. 16:28

4 Smámynd: Tómas Þráinsson

Einu blokkirnar sem ég hef heyrt að séu til einhverra vandræða á þennan hátt eru þær í 1200 hverfinu og 700 hverfinu. Það er hugsanlegt að einhverjir fleiri hafi verið svona óheppnir, en vonandi ekki.

Stóra klúðrið var náttulega það að verktakarnir sem áttu að gera allar blokkirnar upp tóku hitann af þeim og skildu þær eftir í heilt ár án kyndingar. Mikil vitglóra eða þannig sko.

Tómas Þráinsson, 16.11.2012 kl. 17:26

5 Smámynd: Sveinbjörg Inga Lind

2D

Sveinbjörg Inga Lind, 17.11.2012 kl. 15:04

6 Smámynd: Tómas Þráinsson

Beint fyrir ofan hausinn á mér semsagt. Við fluttum inn í okt 2011 og losuðum okkur út í júlí síðastliðnum. Reikna með að þú hafir forðað þér eitthvað fyrir þann tíma sem ég flutti inn

Tómas Þráinsson, 17.11.2012 kl. 15:09

7 Smámynd: Tómas Þráinsson

Ég fékk eftirfarandi frá Helgu Norðdahl og kann ég henni bestu þakkir fyrir þessar upplýsingar:

Helga Norðdahl

Fyrst langar mig bara að benda á að mygla í sumu húsnæði á Ásbrú er mikið eldra vandamál en frá þvi að Íslendingar eignuðust þær eða þær stóðu auðar og ókyntar um tima.

Þegar herinn var þarna, var mygla i ákveðnu husnæði og er þar enn. Það ætti að vera núverandi eigendum að fullu ljóst, bara ef þeir vilja vita það, að þessi mygla þarna er ekki afleiðing af sóðaskap eða annarri umgengni núverandi eða þáverandi íbúa:

Að halda því fram er hreinlega tæki eigenda til að varpa frá sér vandanum, hinum raunverulega vanda þar, sem er: mygla er falin i byggingunum sjálfum.

Það alveg sama hversu oft er þrifið, loftað út eða málað yfir, myglan verður áfram vandamál - hún kemur aftur og aftur og aftur þar til gert er við það sem gera þarf við! - og hún er farin að valda mengun löngu áður en hún verður vel sýnileg er manni sagt . En það kostar peninga að gera við byggingarnar og það er þar sem hnífurinn stendur i kúnni að mínu mati - kostnaður minnkar arðinn í vasa eiganda og um það snýst málið.

Eins og fólk er orðið upplýst um þann heilsuvanda sem mygla í húsnæði getur valdið, þá finnst manni það ekki vera á nokkurn hátt verjandi að verið sé að leigja út slíkt húsnæði og maður spyr sig: Ef það er gert samt, hvort leigusali sé ekki vitandi vits að selja svikna vöru þ.e. að rukka fyrir afnot af hugsanlega heilsuspillandi húsnæði? Og þá spyr ég aftur - hver á að framfylgja þvi að viðskipti milli manna séu samkvæmt lögum og heiðarleg yfir höfuð í svona málum?

Tómas Þráinsson, 30.11.2012 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Tómas Þráinsson
Tómas Þráinsson
Hef skoðanir á öllu og er ekki alltaf kurteis um málin, enda ekki ástæða til

Tónlistarspilari

Tómas Þráinsson - Litli Úlfur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband